Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 727  —  198. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðrik Sophusson, Guðmund Gunnarsson og Þórð Guðmundsson frá Landsvirkjun, Ágúst Sindra Karlsson frá Íslandssíma, Bergþór Halldórsson og Pál Ásgrímsson frá Landssímanum, Þórólf Árnason og Jóakim Reynisson frá Tali, Jón Þórodd Jónsson frá Irju, Eirík Bragason frá Línu.net, Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Gústaf Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun og Guðmund Sigurðsson frá Samkeppnisstofnun. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Landsvirkjun og Póst- og fjarskiptastofnun.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að bætt verði við 2. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum, heimild til handa fyrirtækinu til að eiga aðild að fjarskiptafyrirtækjum. Frá því að Landsvirkjun hóf starfsemi árið 1965 hefur fyrirtækið átt og rekið eigið fjarskiptakerfi til að þjóna ýmsum sérþörfum í rekstri. Aðskilnaður hefur verið milli fjarskiptabúnaðar Landsvirkjunar og hins almenna fjarskipta- og símakerfis landsins og samtengingar þar á milli hafa ekki verið heimilar. Með hliðsjón af því samkeppnisumhverfi sem nú er á fjarskiptasviðinu hefur hins vegar vaknað áhugi ýmissa rekstraraðila og notenda fjarskiptakerfa á að leigja stöðvar og línur í fjarskiptakerfi Landsvirkjunar.
    Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að sá búnaður sem Landsvirkjun hefur komið sér upp verði nýttur í þágu fjarskipta hér á landi. Þá væri fjárfesting Landsvirkjunar nýtt í þágu annarra fyrirtækja á fjarskiptamarkaði og telur meiri hlutinn að það hefði jákvæð áhrif á fjarskiptaþjónustu við miðhálendið og landsbyggðina.
    Meiri hlutinn bendir á að það er stjórn Landsvirkjunar sem ákveður hversu langt fyrirtækið gengur í rekstri fjarskiptafyrirtækja, en leggur áherslu á að tryggt verði að rekstur fjarskiptakerfis Landsvirkjunar verði aðskilinn frá öðrum rekstri fyrirtækisins og fái ekki fjármagn úr honum og fjárhagsleg skipti verði á viðskiptalegum forsendum. Í þessu sambandi skal það jafnframt nefnt að Póst- og fjarskiptastofnun, sem og Samkeppnisstofnun, munu hafa eftirlit með rekstri fjarskiptahluta Landsvirkjunar verði frumvarpið að lögum.
    Meiri hlutinn mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 9. mars 2000.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Drífa Hjartardóttir.



Árni R. Árnason.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Árni Steinar Jóhannsson,


með fyrirvara.